Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
Veldu tungumál

Aerivio Spiromax (salmeterol xinafoate / fluticasone propionate) – Fylgiseðill - R03AK06

Updated on site: 05-Oct-2017

Nafn lyfsAerivio Spiromax
ATC-kóðiR03AK06
Efnisalmeterol xinafoate / fluticasone propionate
FramleiðandiTeva B.V.

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir sjúkling

Aerivio Spiromax 50 míkrógrömm/500 míkrógrömm innöndunarduft salmeteról/flútikasón própíónat

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

-Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

-Leitið til læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðingsins ef þörf er á frekari upplýsingum.

-Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

-Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

1.Upplýsingar um Aerivio Spiromax og við hverju það er notað

2.Áður en byrjað er að nota Aerivio Spiromax

3.Hvernig nota á Aerivio Spiromax

4.Hugsanlegar aukaverkanir

5.Hvernig geyma á Aerivio Spiromax

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.Upplýsingar um Aerivio Spiromax og við hverju það er notað

Aerivio Spiromax inniheldur tvö lyf, salmeteról og flútikasón própíónat:

Salmeteról er langverkandi berkjuvíkkandi lyf. Berkjuvíkkandi lyf hjálpa til við að halda loftvegum lungna opnum. Þetta auðveldar lofti að komast inn og út. Áhrifin vara a.m.k. 12 klst.

Flútikasón própíónat er barksteri sem dregur úr þrota og ertingu í lungum.

Læknirinn hefur ávísað þessu lyfi til að meðhöndla

Alvarlegan astma, til að koma í veg fyrir andnauðarköst og más,

eða

Langvinna lungnateppu, til að draga úr endurkomu einkenna.

Þú verður að nota Aerivio Spiromax daglega samkvæmt leiðbeiningum læknis. Þetta tryggir að það virki á réttan hátt til við stjórnun astma og langvinnrar lungnateppu.

Aerivio Spiromax hjálpar til við að koma í veg fyrir andnauð og másandi öndun. Hins vegar á ekki að nota Aerivio Spiromax til þess að draga úr andnauðarkasti eða mási. Ef þetta gerist þarftu að nota skjótvirkt innöndunarlyf til að létta á einkennum svo sem salbútamól. Þú skal ávallt hafa innöndunartæki með skjótvirku lyfi á þér til þess að nota í neyð.

Aerivio Spiromax skal eingöngu nota til að meðhöndla alvarlegan astma hjá fullorðnum 18 ára og eldri og hjá fullorðnum með langvinna lungnateppu.

2. Áður en byrjað er að nota Aerivio Spiromax

Ekki má nota Aerivio Spiromax:

-ef um er að ræða ofnæmi fyrir salmeteróli, flútikasón própíónati eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6).

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum, lyfjafræðingi eða hjúkrunarfræðingnum áður en Aerivio Spiromax er notað ef eftirfarandi á við:

Hjartasjúkdómur til dæmis óreglulegur eða hraður hjartsláttur

Ofvirkur skjaldkirtill

Hár blóðþrýstingur

Sykursýki (Aerivio Spiromax kann að hækka blóðsykur)

Lág kalíumgildi í blóði

Berklar, nú eða fyrr, eða aðrar lungnasýkingar

Börn og unglingar

Þetta lyf er ekki ætlað börnum eða unglingum yngri en 18 ára.

Notkun annarra lyfja samhliða Aerivio Spiromax

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð. Þetta á einnig við um önnur lyf við astma eða önnur lyf sem fengin eru án ávísunar. Hugsanlegt er að ekki henti að nota Aerivio Spiromax með tilteknum lyfjum.

Látið lækninn vita eftirfarandi lyf eru notuð áður en byrjað er að nota Aerivio Spiromax:

Beta blokkar (svo sem atenólól, propranólól og sótalól). Beta blokkar eru að mestu notaðir við háum blóðþrýstingi eða hjartakvillum á borð við hjartaöng.

Lyf við sýkingum (svo sem ritonavír, ketókónasól, itrakónasól og erytrómysín). Nokkur þessara lyfja geta aukið magn salmeteróls eða flútikasón própíónats í líkamanum. Þetta getur aukið hættu á aukaverkunum Aerivio Spiromax, svo sem óreglulegum hjartslætti, eða gert aukaverkanir verri.

Barksterar (til inntöku eða inndælingar). Nýleg notkun þessara lyfja kann að auka hættu á áhrifum Aerivio Spiromax á nýrnahettur.

Þvagræsilyf, einnig nefnd vatnslosandi lyf, notuð við of háum blóðþrýstingi.

Önnur berkjuvíkkandi lyf (svo sem salbútamól).

Lyf sem innihalda xantín, svo sem amínófyllín og teófyllín. Þau eru oft notuð við astma.

Sum lyf geta aukið áhrif Aerivio Spiromax og læknirinn gæti viljað fylgjast vandlega með þér ef þú ert að taka þessi lyf (þ.m.t. sum lyf við HIV: rítónavír, cobicistat).

Meðganga og brjóstagjöf

Við meðgöngu, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Ekki er þekkt hvort lyfið berist í brjóstamjólk. Við brjóstagjöf skal leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en lyfið er notað.

Akstur og notkun véla

Ólíklegt er að Aerivio Spiromax hafi áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla.

Aerivio Spiromax inniheldur laktósa

Laktósi er tegund sykurs sem er að finna í mjólk. Laktósi inniheldur dálítið magn af mjólkurprótínum sem kunna að valda ofnæmisviðbrögðum. Ef læknirinn hefur sagt þér að þú hafir óþol eða ofnæmi fyrir laktósa, öðrum sykrum eða mjólk skal leita ráða hjá lækninum áður en lyfið er notað.

3.Hvernig nota á Aerivio Spiromax

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Notaðu Aerivio Spiromax daglega þar til læknirinn ráðleggur þér að hætta. Ekki taka meira en ráðlagðan skammt. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Ekki hætta að nota Aerivio Spiromax eða minnka skammt Aerivio Spiromax án þess að ræða við lækninn fyrst.

Aerivio Spiromax er til innöndunar gegnum munn og niður í lungu.

Ráðlagður skammtur er:

Alvarlegur astmi hjá fullorðnum 18 ára og eldri

Einn innöndunarskammtur tvisvar á dag

Langvinn lungnateppa

Einn innöndunarskammtur tvisvar á dag

Ef þú notar Aerivio Spiromax við astma athugar læknirinn einkennin með reglulegu millibili.

Læknirinn hjálpar þér að meðhöndla astmann og aðlagar skammt lyfsins að minnsta skammti sem gagnast þér við stjórn á astmanum. Ef læknirinn telur að þú þurfir minni skammt en unnt er að fá með Aerivio Spiromax ávísar hann hugsanlega öðru innöndunartæki sem inniheldur sömu virku efni og Aerivio Spiromax en með minni skammti barkstera. Hins vegar skaltu ekki breyta fjölda innöndunarskammta sem læknirinn hefur ávísað nema tala við lækninn fyrst.

Ef astmi eða öndun versnar skaltu láta lækninn vita tafarlaust. Ef þú finnur fyrir meira mási, finnur oftar fyrir þrengslum fyrir brjósti eða ef þú þarft að nota meira af skjótvirku lyfi sem léttir á einkennum er mögulegt að þér sé að versna og þú gætir orðið alvarlega veik/ur. Þú skal halda áfram að nota Aerivio Spiromax en ekki auka fjölda úðaskammta. Farðu strax til læknisins þar sem þú þarft hugsanlega á frekari meðferð að halda.

Leiðbeiningar fyrir notkun

Þjálfun

Læknirinn, hjúkrunarfræðingurinn eða lyfjafræðingur eiga að veita þér þjálfun í notkun innöndunartækisins þ.m.t. hvernig eigi að taka skammtinn á árangursríkan hátt. Þessi þjálfun er mikilvæg til þess að tryggja að þú fáir skammtinn sem þú þarft á að halda. Ef þú hefur ekki fengið þessa þjálfun skaltu biðja lækninn, hjúkrunarfræðinginn eða lyfjafræðing að sýna þér hvernig nota eigi innöndunartækið á réttan hátt áður en þú notar það í fyrsta skipti.

Læknirinn, hjúkrunarfræðingurinn eða lyfjafræðingur ættu einnig að athuga af og til hvernig þú notar Spiromax tækið til að tryggja að þú notir tækið á réttan hátt og samkvæmt fyrirmælum læknisins. Ef þú notar Aerivio Spiromax ekki á réttan hátt og/eða þú andar ekki nægilega kröftuglega að þér, getur það þýtt að þú fáir ekki nægilega mikið af lyfinu í lungun. Ef þú færð ekki nægilega mikið af lyfinu í lungun kemur það ekki að gagni við astmanum eða langvinnri lungnateppu eins og það á að gera.

Undirbúningur Aerivio Spiromax

Áður en Aerivio Spiromax er notað í fyrsta skipti þarftu að undirbúa það fyrir notkun á eftirfarandi hátt:

Athugaðu skammtamælinn til að ganga úr skugga um að 60 innöndunarskammtar séu í innöndunartækinu.

Skráðu dagsetninguna þegar þynnupokinn er opnaður á miðann á innöndunartækinu.

Þú þarft ekki að hrista innöndunartækið fyrir notkun.

Hvernig á að taka innöndunarskammt

1.Haltu innöndunartækinu þannig að hálfgegnsæja, gula munnstykkishlífin snúi niður. Þú þarft ekki að hrista innöndunartækið.

2.Opnaðu munnstykkishlífina með því að snúa henni niður þangað til einn smellur heyrist. Innöndunartækið er nú tilbúið til notkunar.

LOFTOP

Ekki loka

OPNI

3.Andaðu varlega frá þér (eins mikið og þér þykir þægilegt). Ekki anda út gegnum innöndunartækið.

4.Settu munnstykkið milli tannanna. Ekki bíta í munnstykkið. Lokaðu vörunum utan um munnstykkið. Gættu þess að loka ekki fyrir loftgötin á tækinu.

Andaðu djúpt inn um munninn og eins kröftuglega og þú getur. Athugaðu að mikilvægt er að þú andir kröftuglega að þér.

ANDIÐ

5.Haltu niðri andanum í 10 sekúndur eða eins lengi og þér þykir þægilegt.

6.Taktu innöndunartækið úr munninum. Þú getur fundið bragð þegar þú færð innöndunarskammtinn.

7.Síðan skaltu anda varlega frá þér (ekki anda út gegnum innöndunartækið). Lokaðu munnstykkishlífinni.

LOK

Síðan skaltu skola munninn með vatni og spýta því út og/eða bursta tennurnar. Þetta getur komið í veg fyrir þrusku í munni og/eða hæsi.

Ekki reyna að taka innöndunartækið í sundur, fjarlægja munnstykkishlífina eða snúa upp á hana. Munnstykkishlífin er fest á innöndunartækið og ekki má taka hana af. Ekki nota innöndunartækið ef það er skemmt eða ef munnstykkið hefur losnað af innöndunartækinu. Ekki opna og loka munnstykkishlífinni nema ætlunin sé að nota innöndunartækið.

Ef þú opnar og lokar munnstykkinu án þess að taka innöndunarskammtinn er skammturinn geymdur á öruggan hátt í innöndunartækinu, tilbúinn fyrir næstu innöndun. Ekki er hægt að taka of mikið af lyfinu eða tvöfaldan skammt fyrir slysni.

Haltu ávallt munnstykkinu lokuðu nema þú ætlir að nota innöndunartækið.

Hreinsun innöndunartækisins

Haltu innöndunartækinu þurru og hreinu.

Ef á þarf að halda má strjúka munnstykki innöndunartækisins eftir notkun með þurrum klút eða þurrku.

Þegar þú byrjar að nota nýtt Aerivio Spiromax tæki

Skammtamælirinn aftan á tækinu segir fyrir um hversu margir skammtar (innöndunarskammtar) eru eftir í tækinu og sýnir 60 innöndunarskammta til að byrja með þegar tækið er fullt.

Skammtamælirinn sýnir fjölda innöndunarskammta sem eftir eru, eingöngu í sléttum tölum.

Við 20 innöndunarskammta og niður í „8“, „6“, „4“, „2“ eru tölurnar rauðar á hvítum grunni. Þegar tölurnar í glugganum verða rauðar skaltu fara til læknisins og fá nýtt innöndunartæki.

Athugið:

Það heyrist áfram smellur í munnstykkinu jafnvel þó innöndunartækið sé tómt. Ef þú opnar og lokar munnstykkinu án þess að taka innöndunarskammt telur skammtamælirinn það samt sem skömmtun.

Ef notaður er stærri skammtur Aerivio Spiromax en mælt er fyrir um

Mikilvægt er að nota innöndunartækið samkvæmt leiðbeiningum. Ef þú tekur óvart fleiri skammta en ráðlagt er skaltu ræða við lækninn eða lyfjafræðing. Þú getur fundið fyrir hröðum hjartslætti og skjálfta. Þú getur einnig fundið fyrir sundli, höfuðverk, slappleika í vöðvum og liðverkjum.

Ef þú hefur notað of marga skammta af Aerivio Spiromax í langan tíma skaltu leita ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi. Þetta er vegna þess að of mikil notkun Aerivio Spiromax getur dregið úr því magni sterahormóna sem nýrnahetturnar framleiða.

Ef gleymist að nota Aerivio Spiromax

Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að nota. Taktu einfaldlega næsta skammt á eðlilegum tíma.

Ef hætt er að nota Aerivio Spiromax

Mikilvægt er að þú notir Aerivio Spiromax daglega samkvæmt leiðbeiningum. Haltu notkun þess áfram þar til læknirinn segir þér að hætta. Ekki hætta eða minnka skyndilega skömmtun Aerivio Spiromax. Það gæti gert öndunina verri.

Ef notkun Aerivio Spiromax er skyndilega hætt eða skammtar Aerivio Spiromax minnkaðir geta (örsjaldan) vandamál í nýrnahettum (nýrnahettubilun) komið fram og valdið aukaverkunum.

Þessar aukaverkanir geta falið í sér eftirfarandi:

Magaverk

Þreytu og lystarleysi, ógleðitilfinningu

Ógleði og niðurgang

Þyngdartap

Höfuðverk eða svefnhöfga

Lág blóðsykursgildi

Lágan blóðþrýsting og flog (köst)

Þegar líkaminn er undir álagi, t.d. vegna hita, áverka (svo sem vegna slyss eða meiðsla), sýkingar eða skurðaðgerðar, getur nýrnahettubilun versnað og hugsanlegt er að þú fáir ofangreindar aukaverkanir.

Ef þú færð aukaverkanir skaltu ræða við lækninn eða lyfjafræðing. Til þess að koma í veg fyrir þessi einkenni er hugsanlegt að læknirinn ávísi barksterum í töfluformi til viðbótar (svo sem prednisóloni).

Leitið til læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðingsins ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum. Til þess að draga úr hættu á aukaverkunum ávísar læknirinn minnsta skammti þessarar lyfjasamsetningar sem nægir til að meðhöndla astma eða langvinna lungnateppu.

Ofnæmisviðbrögð: hugsanlega tekur þú eftir skyndilegri versnun öndunar strax eftir notkun Aerivio Spiromax. Þú getur fundið fyrir miklu mási og hósta eða mæði. Einnig getur þú fundið fyrir kláða, útbrotum

(ofsakláða) og þrota (venjulega í andliti, vörum, tungu eða hálsi), eða skyndilegri tilfinningu um að hjartað slái mjög hratt eða yfirliðs- og vönkunartilfinningu (sem getur leitt til losts eða meðvitundarleysis). Ef þú

færð einhver af þessum einkennum eða þau koma skyndilega fram eftir notkun Aerivio Spiromax skaltu hætta að nota Aerivio Spiromax og láta lækninn vita tafarlaust. Ofnæmisviðbrögð vegna Aerivio Spiromax eru sjaldgæf (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum).

Aðrar aukaverkanir eru taldar upp hér á eftir:

Mjög algengar (geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum)

Höfuðverkur: batnar venjulega eftir því sem líður á meðferð.

Tilkynnt hefur verið um aukningu kveftilvika hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu.

Algengar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum)

Þruska (aumir, rjómagulir, upphleyptir blettir) í munni og hálsi. Einnig eymsli í tungu, hæsi og erting í hálsi. Það getur hjálpað að skola munninn með vatni og spýta því út tafarlaust og/eða bursta tennurnar eftir hvern skammt af lyfinu. Læknirinn kann að ávísa sveppalyfi til þess að meðhöndla þruskuna.

Verkir, þroti í liðum og vöðvaverkir.

Sinadráttur.

Einnig hefur verið tilkynnt um eftirfarandi aukaverkanir hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu:

Lungnabólga og berkjubólga (lungnasýking). Láttu lækninn vita ef vart verður við eftirfarandi einkenni meðan á notkun Aerivio Spiromax stendur þar sem þetta geta verið einkenni um lungasýkingu: hiti eða kuldahrollur; aukin slímmyndun, litabreytingar í slími; aukinn hósti eða auknir öndunarerfiðleikar.

Mar og brot.

Skútabólga (tilfinning um spennu eða þrýsting í nefi, kinnum og bak við augun, stundum ásamt sláttarhöfuðverk).

Lækkun kalíums í blóði (þú kannt að finna fyrir óreglulegum hjartslætti, slappleika í vöðvum, krampa).

Sjaldgæfar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum)

Aukning á magni sykurs (glúkósa) í blóði (blóðsykurshækkun). Ef þú ert með sykursýki kann að vera þörf á tíðara eftirliti með blóðsykri og hugsanlega breytingu á venjulegri meðferð við sykursýki.

Drer (ský á augasteini).

Mjög hraður hjartsláttur (hraðtaktur).

Skjálftatilfinning (skjálfti) og hraður eða óreglulegur hjartsláttur (hjartsláttarónot): Þetta er venjulega skaðlaust og lagast eftir því sem líður á meðferð.

Verkur fyrir brjósti.

Áhyggjur (þó þetta komi aðallega fyrir hjá börnum þegar þessari lyfjasamsetningu er ávísað af minni styrk).

Svefntruflanir.

Ofnæmishúðútbrot.

Mjög sjaldgæfar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 1.000 einstaklingum)

Öndunarerfiðleikar eða más sem versnar strax eftir töku Aerivio Spiromax. Ef þetta gerist skaltu hætta að nota Aerivio Spiromax innöndunartækið. Notaðu skjótvirkt innöndunarlyf til að létta á einkennum og auðvelda öndun og láttu lækninn vita tafarlaust.

Aerivio Spiromax kann að hafa áhrif á venjulega framleiðslu sterahormóna í líkamanum, einkum ef þú tekur stóra skammta í langan tíma. Þessi áhrif eru m.a.:

Hægari vöxtur hjá börnum og unglingum

Beinþynning

Gláka

Þyngdaraukning

Kringlótt (tungllaga) andlit (Cushing heilkenni)

Læknirinn skoðar þig reglulega með tilliti til þessara aukaverkana og gengur úr skugga um að þú takir minnsta mögulega skammtinn af þessari lyfjasamsetningu til að ná stjórn á astmanum.

Atferlisbreytingar eins og óvenju mikil virkni og pirringur (þó þetta komi aðallega fyrir hjá börnum þegar þessari lyfjasamsetningu er ávísað af minni styrk).

Ójafn eða óreglulegur hjartsláttur eða aukaslög (hjartsláttaróregla). Láttu lækninn vita en ekki hætta notkun Aerivio Spiromax nema læknirinn segi þér að hætta.

Sveppasýking í vélinda, sem getur valdið erfiðleikum við að kyngja.

Tíðni ekki þekkt, en geta einnig að koma fyrir:

Þunglyndi eða árásargirni (þó þetta komi frekar fyrir hjá börnum þegar þessari lyfjasamsetningu er ávísað af minni styrk).

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.Hvernig geyma á Aerivio Spiromax

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á öskjunni og umbúðum innöndunartækisins á eftir EXP. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið við lægri hita en 25°C. Haldið munnstykkishlífinni lokaðri eftir að þynnuumbúðir hafa verið fjarlægðar.

Notið innan 3 mánaða eftir að þynnuumbúðir hafa verið fjarlægðar. Notið miðann á innöndunartækinu til þess að skrá dagsetninguna þegar þynnupokinn var opnaður.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda umhverfið.

6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

Aerivio Spiromax inniheldur

-Virku innihaldsefnin eru salmeteról og flútikasón própíónat. Hver afmældur skammtur inniheldur

50 míkrógrömm af salmeteróli (sem salmeteról xinafóat) og 500 míkrógrömm af flútikasón própíónati. Hver gefinn skammtur (skammtur sem kemur úr munnstykkinu) inniheldur 45 míkrógrömm af salmeteróli (sem salmeteról xinafóat) og 465 míkrógrömm af flútikasón própíónati.

-Önnur innihaldsefni eru laktósaeinhýdrat (sjá kafla 2 undir „Aerivio Spiromax inniheldur laktósa“).

Lýsing á útliti Aerivio Spiromax og pakkningastærðir

Aerivio Spiromax er innöndunarduft.

Hvert Aerivio Spiromax innöndunartæki inniheldur 60 úðaskammta og er hvítt tæki með hálfgegnsærri, gulri munnstykkishlíf.

Pakkningar með 1 og 3 innöndunartækjum. Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar í viðkomandi landi.

Markaðsleyfishafi

Teva B.V.

Swensweg 5, 2031 GA Haarlem, Holland

Framleiðandi

Norton (Waterford) Limited T/A Teva Pharmaceuticals Ireland

Unit 27/35, IDA Industrial Park, Cork Road, Waterford, Írland

Teva Pharmaceuticals Europe B.V., Swensweg 5, 2031 GA Haarlem, Holland

(Pólland eingöngu) Teva Operations Poland Sp. z o.o. Mogilska 80 Str. 31-546 Kraków, Pólland

Hafið samband við fulltrúa markaðsleyfishafa á hverjum stað ef óskað er upplýsinga um lyfið:

België/Belgique/Belgien

Lietuva

Teva Pharma Belgium N.V./S.A./AG

UAB “Sicor Biotech”

Tel/Tél: +32 3 820 73 73

Tel: +370 5 266 02 03

България

Luxembourg/Luxemburg

Тева Фармасютикълс България ЕООД

Teva Pharma Belgium N.V./S.A./AG

Teл: +359 2 489 95 82

Tel/Tél: +32 3 820 73 73

Česká republika

Magyarország

Teva Pharmaceuticals CR, s.r.o.

Teva Gyógyszergyár Zrt

Tel: +420 251 007 111

Tel.: +36 1 288 64 00

Danmark

Malta

Teva Denmark A/S

Teva Pharmaceuticals Ireland

Tlf: +45 44 98 55 11

L-Irlanda

 

Tel: +353 51 321 740

Deutschland

Nederland

Teva GmbH

Teva Nederland B.V.

Tel: +49 731 402 08

Tel: +31 800 0228 400

Eesti

Norge

Teva Eesti esindus UAB Sicor Biotech Eesti

Teva Norway AS

filiaal

Tlf: +47 6677 55 90

Tel: +372 661 0801

 

Ελλάδα

Österreich

Teva Ελλάς Α.Ε.

ratiopharm Arzneimittel Vertriebs GmbH

Τηλ: +30 210 72 79 099

Tel: +43 1 97007 0

España

Polska

Teva Pharma S.L.U.

Teva Pharmaceuticals Polska Sp. z o.o.

Tél: +34 91 387 32 80

Tel.: +48 22 345 93 00

France

Portugal

Teva Santé

Teva Pharma - Produtos Farmacêuticos Lda

Tél: +33 1 55 91 7800

Tel: +351 21 476 75 50

Hrvatska

România

Pliva Hrvatska d.o.o

Teva Pharmaceuticals S.R.L

Tel: + 385 1 37 20 000

Tel: +4021 230 6524

Ireland

Slovenija

Teva Pharmaceuticals Ireland

Pliva Ljubljana d.o.o.

Tel: +353 51 321 740

Tel: +386 1 58 90 390

Ísland

Slovenská republika

Vistor

Teva Pharmaceuticals Slovakia s.r.o.

Simi: +354 535 7000

Tel: +421 2 5726 7911

Italia

Suomi/Finland

Teva Italia S.r.l.

Teva Finland

Tel: +39 028 917 981

Puh/Tel: +358 20 180 5900

Κύπρος

Sverige

Teva Ελλάς Α.Ε.

Teva Sweden AB

Ελλάδα

Tel: +46 42 12 11 00

Τηλ: +30 210 72 79 099

 

Latvija

United Kingdom

Sicor Biotech filiāle Latvijā

Teva UK Limited

Tel: +371 67 323 666

Tel: +44 1977 628 500

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður í mánuður ÁÁÁÁ.

Upplýsingar sem hægt er að nálgast annars staðar

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu: http://www.ema.europa.eu

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf