Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z

Elmiron (pentosan polysulfate sodium) – Fylgiseðill - G04BX15

Updated on site: 06-Oct-2017

Nafn lyfsElmiron
ATC-kóðiG04BX15
Efnipentosan polysulfate sodium
Framleiðandibene-Arzneimittel GmbH

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir sjúkling

elmiron 100 mg hörð hylki pentósanpólýsúlfatnatríum

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum.

Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

1.Upplýsingar um elmiron og við hverju það er notað

2.Áður en byrjað er að nota elmiron

3.Hvernig nota á elmiron

4.Hugsanlegar aukaverkanir

5.Hvernig geyma á elmiron

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.Upplýsingar um elmiron og við hverju það er notað

Elmiron er lyf sem inniheldur virka efnið pentósanpólýsúlfatnatríum. Eftir að lyfið er tekið inn fer það út í þvagið og festist við himnu þvagblöðrunnar til að aðstoða við myndun varnarlags.

Elmiron er notað hjá fullorðnum til meðferðar við millivefsblöðrubólgu sem einkennist af mörgum litlum blæðingum eða auðkennandi sárum á vegg þvagblöðrunnar. En henni fylgir einnig miðlungsmikill eða mikill verkur og tíð þörf fyrir þvaglát.

2. Áður en byrjað er að nota elmiron

Ekki má nota elmiron ef um er að ræða

ofnæmi fyrir pentósanpólýsúlfatnatríum eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6)

blæðingu (önnur en tíðablæðing)

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðingi áður en elmiron er notað ef:

þú átt að fara í aðgerð

þú ert með blóðstorknunarkvilla eða í aukinni hættu á að fá blæðingar, t.d. ef þú notar lyf sem hindra blóðstorknun

þú hefur einhvern tímann fengið fækkun blóðflagna af völdum lyfs sem kallast heparín

þú ert með skerta lifrar- eða nýrnastarfsemi

Börn og unglingar

Ekki er mælt með notkun elmiron hjá sjúklingum yngri en 18 ára þar sem ekki hefur verið sýnt fram á öryggi og verkun hjá þeim sjúklingahópi.

Notkun annarra lyfja samhliða elmiron

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð.

Látið lækninn eða lyfjafræðing sérstaklega vita ef þú notar lyf sem koma í veg fyrir blóðstorknun eða verkjalyf sem draga úr blóðstorknun.

Meðganga og brjóstagjöf

Notkun elmiron er ekki ráðlögð á meðgöngu eða við brjóstagjöf.

Akstur og notkun véla

Elmiron hefur engin eða óveruleg áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla.

3.Hvernig nota á elmiron

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn eða lyfjafræðingur hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Ráðlagður skammtur er:

Eitt hylki, þrisvar á dag

Læknirinn mun meta viðbrögð þín við elmiron á sex mánaða fresti.

Aðferð við notkun

Taka skal hylkin inn heil með glasi af vatni a.m.k. 1 klst. fyrir máltíð eða 2 klst. eftir máltíð.

Ef tekinn er stærri skammtur af elmiron en mælt er fyrir um

Láttu lækninn vita ef þú tekur inn of stóran skammt af lyfinu. Hættu að taka elmiron ef aukaverkanir gera vart við sig og þar til þær hverfa.

Ef gleymist að taka elmiron

Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp hylki sem gleymst hefur að taka.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

Aukaverkanir hafa komið fram við notkun elmiron í eftirfarandi tíðni:

Algengar: geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum

sýkingar, flensa

höfuðverkur, bakverkur

sundl

ógleði, meltingartruflanir, niðurgangur, kviðverkur, þaninn kviður

blæðing frá endaþarmi

vökvauppsöfnun í hand- eða fótleggjum

hárlos

slappleiki, verkir í grindarholi (neðra kviðarhol)

þörf til að hafa þvaglát oftar en venjulega

óeðlileg lifrarstarfsemi

Sjaldgæfar: geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum

skortur á blóðflögum, rauðum eða hvítum blóðkornum

blæðingar, þ.m.t. litlar blæðingar undir húð

blóðstorknunarkvillar

ofnæmisviðbrögð, aukið næmi fyrir ljósi

lystarleysi, þyngdaraukning eða þyngdartap

miklar skapsveiflur eða þunglyndi

aukin svitamyndun, svefnleysi

eirðarleysi

óeðlileg tilfinning á borð við stingi, náladofa og kláða

táramyndun, sjóndepra

suð fyrir eyrum

öndunarerfiðleikar

meltingartruflanir, uppköst, vindgangur, hægðatregða

sár í munni

húðútbrot, stækkun fæðingarbletta

lið- og vöðvaverkir

Tíðni ekki þekkt: ekki hægt að áætla tíðni út frá fyrirliggjandi gögnum

blóðstorknunarkvillar

ofnæmisviðbrögð

óeðlileg lifrarstarfsemi

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.Hvernig geyma á elmiron

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

glas

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á merkimiðanum og öskjunni á eftir „EXP“. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið glasið vel lokað til varnar gegn raka.

Eftir opnun: notið lyfið innan 30 daga. Fargið öllum afgangshylkjum að þeim tíma liðnum.

þynnupakkning

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á öskjunni og þynnupakkningunni á eftir „EXP“. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið ekki við hærri hita en 30 C.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda umhverfið.

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

Elmiron inniheldur

Virka innihaldsefnið er pentósanpólýsúlfatnatríum.

Eitt hart hylki inniheldur 100 mg af pentósanpólýsúlfatnatríum.

Önnur innihaldsefni eru örkristallaður sellulósi, magnesíumsterat, gelatín, títantvíoxíð (E171).

Lýsing á útliti elmiron og pakkningastærðir

Hörðu hylkin eru hvít og ógagnsæ, afgreidd í plastglasi með barnaöryggisloki eða í plast- /álþynnupakkningum í öskju.

Hver askja inniheldur 90 hylki.

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

bene-Arzneimittel GmbH Herterichstrasse 1-3 D-81479 München

sími: +49 (0)89 749870 símbréf: +49 (0)89 74987142

netfang: contact@bene-arzneimittel.de

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður <{MM/ÁÁÁÁ}>.

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu http://www.ema.europa.eu.

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf