Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z

Fareston (toremifene) – Fylgiseðill - L02BA02

Updated on site: 06-Oct-2017

Nafn lyfsFareston
ATC-kóðiL02BA02
Efnitoremifene
FramleiðandiOrion Corporation

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Fareston 60 mg töflur

Toremifen

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

-Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

-Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um lyfið.

-Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

-Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

1.Upplýsingar um Fareston og við hverju það er notað

2.Áður en byrjað er að nota Fareston

3.Hvernig nota á Fareston

4.Hugsanlegar aukaverkanir

5.Hvernig geyma á Fareston

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.Hvað er Fareston og við hverju það er notað

Fareston inniheldur virka efnið toremifen, sem er andestrogen. Fareston er notað til að meðhöndla ákveðnar tegundir æxla í brjóstum kvenna sem komnar eru yfir tíðahvörf.

2. Áður en byrjað er að nota Fareston

Ekki má nota Fareston

-ef um er að ræða ofnæmi fyrir toremifeni eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6)

-ef þú ert með legslímhúðarþykknun

-ef þú ert með verulegan lifrarsjúkdóm

-ef þú fæddist með eða hefur haft sjúkdóm sem veldur ákveðnum óeðlilegum breytingum á hjartarafriti (hjartalínuriti)

-ef þú ert með ójafnvægi á söltum í blóðinu, einkum lágan styrk kalíums í blóði sem ekki hefur verið leiðréttur með núverandi meðferð

-ef þú ert með mjög hægan hjartslátt

-ef þú ert með hjartabilun

-ef þú ert með sögu um hjartsláttaróreglu

-ef þú ert að taka önnur lyf sem hafa áhrif á hjartað (sjá kafla 2 „Notkun annarra lyfja samhliða Fareston“)

Þetta er vegna þess að Fareston getur haft áhrif á hjartað með því að tefja leiðni rafboða í hjartanu (lenging á QT-bili).

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum eða lyfjafræðing áður en Fareston er notað.

-ef þú ert með óstöðuga sykursýki

-ef almennri heilsu þín hefur hrakað verulega

-ef þú hefur fengið sjúkdóm þar sem blóðtappar myndast í æðum, til dæmis í lungunum (lungnasegarek) eða í bláæðum fótleggja (segarek í djúpum bláæðum)

-ef þú finnur fyrir óeðlilegum hjartslætti á meðan þú notar Fareston. Læknirinn gæti ráðlagt þér að hætta að nota Fareston og gert á þér ákveðnar prófanir til þess að kanna hjartastarfsemina (hjartalínurit) (sjá kafla 2 „Ekki má nota Fareston“)

-ef þú ert með hjartasjúkdóm, til að mynda brjóstverk (hjartaöng)

-ef krabbameinið hefur dreift sér í bein (beinmeinvörp) þar sem styrkur kalsíums í blóði getur aukist við upphaf meðferðar með Fareston. Læknirinn mun framkvæma reglulegar læknisskoðanir.

-ef læknirinn hefur staðfest óþol fyrir ákveðnum sykurtegundum, til dæmis laktósa (sjá kafla 2 „Fareston inniheldur laktósa“)

Þú skalt fara í kvensjúkdómaskoðun áður en meðferð með Fareston hefst og að minnsta kosti einu sinni á ári eftir að meðferð er hafin. Læknirinn mun framkvæma reglulegar læknisskoðanir ef þú ert með háan blóðþrýsting, sykursýki, hefur verið á hormónauppbótarmeðferð eða ef þú þjáist af offitu (BMI yfir 30).

Notkun annarra lyfja samhliða Fareston

Látið lækninn vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð. Það getur þurft að breyta skömmtum einhverra þeirra meðan Fareston er notað. Þú skalt sérstaklega láta lækninn vita ef þú ert að taka eftirfarandi:

-Bjúgtöflur (þvagræsilyf af flokki tíasíða),

-lyf sem koma í veg fyrir blóðtappa eins og warfarin

-lyf sem notuð eru til að meðhöndla flogaveiki eins og carbamazepin, fenytoin, fenobarbital

-lyf sem eru notuð til að meðhöndla sveppasýkingar eins og ketoconazol, itraconazol, voriconazol, posaconazol

-lyf sem notuð eru til að meðhöndla bakteríusýkingar (sýklalyf) eins og erytromycin, claritromycin og telitromycin

-lyf sem notuð eru til að meðhöndla veirusýkingar eins og ritonavir og nelfinavir.

Ekki nota Fareston með eftirfarandi lyfjum þar sem það getur aukið hættuna á hjartsláttarbreytingum (sjá kafla 2 „Ekki má nota Fareston):

-lyfjum sem notuð eru til að meðhöndla óeðlilegan hjartslátt svo sem quinidin, hydroquinidin, disopyramid, amiodaron, sotalol, dofetilid og ibutilid

-lyf sem eru notuð til að meðhöndla geð- og atferlisraskanir (geðrofslyf) svo sem phenothiazin, pimozid, sertindol, haloperidol og sultoprid

-lyfjum sem notuð eru til að meðhöndla sýkingar (sýklalyf) svo sem moxifloxacin, erythromycin (innrennsli), pentamidin og lyf við malaríu (sérstaklega halofantrin)

-ákveðin lyf til meðhöndlunar á ofnæmi svo sem terfenadin, astemizol og mizolastin

-öðrum lyfjum; cisaprid, vincamin gefið í bláæð, bepridil, diphemanil.

Við innlögn á sjúkrahús eða ef nýju lyfi er ávísað skal segja lækninum frá því að þú notir Fareston.

Meðganga og brjóstagjöf

Ekki má nota Fareston á meðgöngu eða við brjóstagjöf.

Akstur og notkun véla:

Fareston hefur engin áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla.

Fareston inniheldur laktósa

Fareston inniheldur laktósa (28,5 mg í hverri töflu). Ef óþol fyrir sykrum hefur verið staðfest skal hafa samband við lækninn áður en lyfið er notað.

3.Hvernig nota á Fareston

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi. Venjulegur skammtur er ein 60 mg tafla til inntöku, einu sinni á sólarhring. Fareston má taka með eða án matar.

Ef tekinn er stærri skammtur en mælt er fyrir um

Hafið tafarlaust samband við lækninn, lyfjafræðing eða nálægt sjúkrahús. Einkenni ofskömmtunar geta verið sundl og höfuðverkur.

Ef gleymist að taka Fareston

Ef einn skammtur gleymist skal taka næst skammt eins og venjulega og halda meðferð áfram eins og ráðlagt var. Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp töflu sem gleymst hefur að taka. Hafi nokkrir skammtar fallið niður skal hafa samband við lækninn og fara eftir leiðbeiningum hans.

Ef hætt er að nota Fareston

Aðeins skal hætta meðferð með Fareston að ákvörðun læknisins.

Leitið til læknisins eða lyfjafræðings ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum, en það gerist þó ekki hjá öllum.

Mjög algengar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum)

-Hitasteypur, aukin svitamyndun.

Algengar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum)

-Þreyta, sundl, þunglyndi

-ógleði, uppköst

-útbrot, kláði, bjúgur

-blæðingar frá legi, hvít útferð.

Sjaldgæfar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum)

-Höfuðverkur, svefntruflanir

-þyngdaraukning, hægðatregða, lystarleysi

-legslímhúðarþykknun

-blóðtappi, til dæmis í lungum (segarekstilvik)

-mæði.

Mjög sjaldgæfar aukaverkanir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 1.000 einstaklingum)

-tilfinning um að allt hringsnúist (svimi)

-vöxtur í legslímhúð (separ í legslímhúð)

-aukning lifrarensíma (aukning transamínasa frá lifur).

Aukaverkanir sem koma örsjaldan fyrir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10.000 einstaklingum)

-Breytingar á legslímhúð, legslímhúðarkrabbamein

-hárlos (hármissir)

-ský á yfirborði augans (skammvinnt ógegnsæi hornhimnu)

-gulnun húðar eða augnhvítu (gula).

Tíðni ekki þekkt (ekki hægt að áætla tíðni út frá fyrirliggjandi gögnum)

-Lítill fjöldi hvítra blóðkorna, sem eru mikilvæg til að berjast gegn sýkingum (hvítkornafæð)

-lítill fjöldi rauðra blóðkorna (blóðleysi)

-lítill fjöldi blóðflagna (blóðflagnafæð)

-bólga í lifur (lifrarbólga).

Verði vart einhverra eftirtalinna einkenna skal tafarlaust hafa samband við lækninn:

-þroti eða eymsli í kálfum

-mæði af óþekktum toga eða skyndilegur brjóstverkur

-blæðingar frá fæðingarvegi eða breytingar á útferð úr leggöngum.

Fareston veldur ákveðnum óeðlilegum breytingum á hjartarafriti (hjartalínuriti). Sjá kafla 2 „Varnaðarorð og varúðarreglur“.

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.Hvernig geyma á Fareston

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á umbúðunum. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Engin sérstök fyrirmæli eru um geymsluaðstæður lyfsins.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda umhverfið.

6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

Fareston inniheldur

-Virka innihaldsefnið er toremifen, hver tafla inniheldur 60 mg (sem sítrat).

-Önnur innihaldsefni eru maíssterkja, laktósi, povidon, natríumsterkjuglýkollat, örkristallaður sellulósi, vatnsfrí kísilkvoða, magnesíumsterat.

Lýsing á útliti Fareston og pakkningastærðir

Hvítar, kringlóttar, flatar, með sniðbrún, merktar TO 60 á annarri hliðinni. 30 og 100 töflur. Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar.

Markaðsleyfishafi

Orion Corporation

Orionintie 1

FIN-02200 Espoo

Finnland

Framleiðandi

Orion Corporation, Orion Pharma

Orionintie 1

FI-02200 Espoo

FIN Finnland

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu http://www.emea.europa.eu

Upplýsingar á íslensku eru á http://www.serlyfjaskra.is

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf