Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
Veldu tungumál

Filgrastim Hexal (filgrastim) – Fylgiseðill - L03AA02

Updated on site: 06-Oct-2017

Nafn lyfsFilgrastim Hexal
ATC-kóðiL03AA02
Efnifilgrastim
FramleiðandiHexal AG

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Filgrastim HEXAL 30 ME/0,5 ml stungulyf/innrennslislyf, lausn í áfylltri sprautu Filgrastim HEXAL 48 ME/0,5 ml stungulyf/innrennslislyf, lausn í áfylltri sprautu

Filgrastim

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

-Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

-Leitið til læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðingsins ef þörf er á frekari upplýsingum.

-Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

-Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Í fylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

1.Upplýsingar um Filgrastim HEXAL og við hverju það er notað

2.Áður en byrjað er að nota Filgrastim HEXAL

3.Hvernig nota á Filgrastim HEXAL

4.Hugsanlegar aukaverkanir

5.Hvernig geyma á Filgrastim HEXAL

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

1.Upplýsingar um Filgrastim HEXAL og við hverju það er notað

Filgrastim HEXAL er vaxtarþáttur hvítra blóðfrumna (kyrningavaxtarþáttur) og tilheyrir þeim flokki prótína sem nefnast cýtókín. Vaxtarþættir eru prótín sem líkaminn framleiðir sjálfur en einnig er hægt að búa þá til með líftækni til þess að nota sem lyf. Filgrastim HEXAL vinnur á þann hátt að það örvar beinmerginn til aukinnar framleiðslu á hvítum blóðkornum.

Hvítum blóðfrumum getur fækkað (daufkyrningafæð) af ýmsum ástæðum og það dregur úr getu líkamans til að verjast sýkingum. Filgrastim HEXAL örvar beinmerginn til þess að framleiða hratt nýjar frumur.

Filgrastim HEXAL má nota:

til þess að fjölga hvítum blóðfrumum eftir meðferð með krabbameinslyfjum til að koma í veg fyrir sýkingar,

til þess að fjölga hvítum blóðfrumum eftir beinmergsígræðslu til að koma í veg fyrir sýkingar,

fyrir háskammta krabbameinslyfjameðferð til þess að fá beinmerg til að framleiða fleiri stofnfrumur sem hægt er að safna og gefa þér aftur eftir meðferðina. Hægt er að taka þær úr þér eða úr gjafa. Stofnfrumurnar fara svo aftur í beinmerginn og framleiða blóðfrumur,

til þess að fjölga hvítum blóðfrumum ef þú þjáist af langvinnri daufkyrningafæð, til að koma í veg fyrir sýkingar,

handa sjúklingum með langt gengna HIV sýkingu en það dregur úr hættu á sýkingum.

2.Áður en byrjað er að nota Filgrastim HEXAL

Ekki má nota Filgrastim HEXAL

-ef um er að ræða ofnæmi fyrir filgrastim eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talið upp í kafla 6).

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum, lyfjafræðingi eða hjúkrunarfræðingnum áður en Filgrastim HEXAL er notað.

Gæta skal sérstakrar varúðar við notkun Filgrastim HEXAL ef þú hefur einhvern tímann fengið ofnæmisviðbrögð við latexi.

Láttu lækninn vita áður en meðferð er hafin ef þú ert með:

-beinþynningu.

-sigðkornablóðleysi þar sem Filgrastim HEXAL kann að valda sigðfrumukreppu.

Láttu lækninn tafarlaust vita meðan á meðferð með Filgrastim HEXAL stendur ef þú:

-færð verk í vinstri, efri hluta maga (kviðar), verk fyrir neðan brjóstkassa vinstra megin eða verk efst í vinstri öxl [þetta geta verið einkenni miltisstækkunar eða hugsanlega rifins milta],

-verður var/vör við óeðlilega blæðingu eða marbletti [þetta geta verið einkenni fækkunar blóðflagna (blóðflagnafæð) sem dregur úr storknunarhæfni blóðsins],

-færð skyndileg ofnæmiseinkenni eins og útbrot, kláða eða ofsakláða í húð, bólgu í andliti, vörum, tungu eða öðrum líkamshlutum, mæði, önghljóð eða erfiðleika við öndun þar sem þetta geta verið einkenni alvarlegra ofnæmisviðbragða.

-verður var/vör við þrota í andliti eða ökklum, blóð í þvagi eða brúnleitt þvag eða ef þér finnst þú hafa sjaldnar þvaglát en venjulega.

Minnkuð svörun við filgrastimi

Ef þú finnur fyrir minni svörun eða finnst ganga erfiðlega að viðhalda verkun filgrastim-meðferðar mun læknirinn kanna ástæður þess, ásamt því að athuga hvort þú hafir myndað mótefni sem hafa hlutleysandi áhrif á virkni filgrastims.

Læknirinn gæti viljað fylgjast vel með þér, sjá kafla 4 í fylgiseðlinum.

Ef þú ert sjúklingur með alvarlega, langvinna daufkyrningafæð er hugsanlegt að þú eigir á hættu að fá krabbamein í blóði (hvítblæði, mergmisþroski [MDS]). Þú skalt ræða við lækninn um hættu á því að fá krabbamein í blóði og um hvaða próf þurfi að framkvæma. Ef þú færð eða ef líklegt er að þú fáir krabbamein í blóði, skaltu ekki nota Filgrastim HEXAL nema læknirinn gefi fyrirmæli um það.

Ef þú gefur stofnfrumur þarftu að vera á aldrinum 16 til 60 ára.

Gæta skal sérstakrar varúðar við notkun annarra lyfja sem örva hvít blóðkorn

Filgrastim HEXAL er af hópi lyfja sem örva myndun hvítra blóðkorna. Heilbrigðisstarfsmaður á alltaf að skrá niður nákvæmlega hvaða lyf þú notar.

Notkun annarra lyfja samhliða Filgrastim HEXAL

Látið lækninn eða lyfjafræðing vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð.

Meðganga og brjóstagjöf

Filgrastim HEXAL hefur ekki verið prófað hjá þunguðum konum eða konum með barn á brjósti.

Mikilvægt er að láta lækninn vita ef þú:

ert þunguð,

heldur að þú gætir verið þunguð eða

hefur í hyggju að verða þunguð.

Ef þú verður þunguð meðan á meðferð með Filgrastim HEXAL stendur skaltu láta lækninn þinn vita.

Ef þú notar Filgrastim HEXAL skaltu hætta brjóstagjöf nema læknirinn gefi fyrirmæli um annað.

Akstur og notkun véla

Filgrastim HEXAL ætti ekki að hafa áhrif á hæfni til aksturs eða notkunar véla. Hins vegar er ráðlegra að bíða og sjá til hvernig þér líður eftir töku Filgrastim HEXAL áður en þú ekur eða notar vélar.

Filgrastim HEXAL inniheldur sorbitól

Filgrastim HEXAL inniheldur sorbitól (E420), ef læknirinn hefur sagt þér að þú sýnir viðbrögð gagnvart einhverjum tegundum sykurs, skaltu hafa samband við hann áður en þú tekur lyfið.

3.Hvernig nota á Filgrastim HEXAL

Notið lyfið alltaf eins og læknirinn hefur sagt til um. Ef ekki er ljóst hvernig nota á lyfið skal leita upplýsinga hjá lækninum eða lyfjafræðingi.

Hvernig er Filgrastim HEXAL gefið og hvað á ég að taka mikið?

Filgrastim HEXAL er venjulega gefið sem dagleg inndæling í vefinn rétt undir húðinni (kallað inndæling undir húð). Einnig má gefa það hægt með daglegri inndælingu í æð (kallað innrennsli í bláæð). Venjulegur skammtur er mismunandi stór, byggt á sjúkdómi og þyngd. Læknirinn mun láta þig vita hversu mikið þú skulir nota af Filgrastim HEXAL.

Sjúklingar sem fá beinmergsígræðslu eftir krabbameinslyfjameðferð:

Venjulega er fyrsti skammturinn af Filgrastim HEXAL gefinn að minnsta kosti 24 klst. eftir krabbameinslyfjameðferðina og að minnsta kosti 24 klst. eftir beinmergsígræðsluna.

Þú eða umönnunaraðilar þínir geta fengið kennslu í gjöf inndælinga undir húð svo þú getir haldið meðferðinni áfram heima við. Hins vegar skaltu ekki reyna þetta nema þú hafir fyrst fengið ítarlega þjálfun hjá heilbrigðisstarfsmanni.

Hversu lengi þarf ég að nota Filgrastim HEXAL?

Þú þarft að nota Filgrastim HEXAL þar til fjöldi hvítra blóðkorna verður eðlilegur. Reglulega verða gerðar blóðrannsóknir til þess að fylgjast með fjölda hvítra blóðkorna í líkamanum. Læknirinn mun segja þér hversu lengi þú þurfir að nota Filgrastim HEXAL.

Notkun handa börnum

Filgrastim HEXAL er notað til að meðhöndla börn sem fá krabbameinslyfjameðferð eða sem þjást af alvarlega lágum fjölda hvítra blóðkorna (daufkyrningafæð). Skömmtun handa börnum sem fá krabbameinslyfjameðferð er sú sama og fyrir fullorðna.

Ef stærri skammtur en mælt er fyrir um er notaður af Filgrastim HEXAL

Ekki auka skammtinn sem læknirinn hefur gefið þér. Ef þú telur að þú hafir sprautað meira en mælt var fyrir um skaltu hafa samband við lækninn eins fljótt og auðið er.

Ef gleymist að nota Filgrastim HEXAL

Ef þú hefur gleymt inndælingu eða sprautað of litlu magni skaltu hafa samband við lækninn eins fljótt og auðið er. Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að nota.

Leitið til læknisins, lyfjafræðings eða hjúkrunarfræðingsins ef þörf er á frekari upplýsingum um notkun lyfsins.

4.Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum.

Láttu lækninn tafarlaust vita meðan á meðferð stendur:

ef þú finnur fyrir ofnæmisviðbrögðum, svo sem slappleika, blóðþrýstingsfalli, öndunarörðugleikum, þrota í andliti (bráðaofnæmi), húðútbrotum, útbrotum ásamt kláða

(ofsakláði), þrota í andliti, vörum, munni, tungu eða hálsi (ofsabjúgur) eða mæði (andnauð). Ofnæmi er algengt hjá sjúklingum með krabbamein;

ef þú færð hósta, hita og finnur fyrir öndunarörðugleikum (andnauð) þar sem það geta verið merki um brátt andnauðarheilkenni hjá fullorðnum (ARDS). Andnauðarheilkenni hjá fullorðnum er sjaldgæf aukaverkun hjá sjúklingum með krabbamein;

ef þú færð verk í efri hluta magans (kvið) vinstra megin, verk vinstra megin neðan við rifbeinin eða verk í háöxlina, þar sem miltiskvilli gæti verið fyrir hendi [miltisstækkun eða rifins milta].

ef þú færð meðferð við alvarlegri, langvinnri daufkyrningafæð og ert með blóð í þvagi (blóðmiga). Mögulegt er að læknirinn rannsaki reglulega þvagið ef þú finnur fyrir þessari aukaverkun eða ef prótín kemur fram í þvaginu (prótínmiga).

ef ein eða fleiri eftirfarandi aukaverkana kemur fram:

- bólga eða þroti, stundum með minni tíðni þvagláta, öndunarörðugleikar, þroti í kvið og

mettunartilfinning og almenn þreytutilfinning. Þessi einkenni koma yfirleitt hratt fram. Þetta gætu verið einkenni sjaldgæfs (getur komið fyrir hjá allt að 1 af

hverjum 100 einstaklingum) ástands sem nefnist háræðalekaheilkenni, sem veldur því að blóð lekur úr litlum æðum út í líkamann og krefst tafarlausar læknishjálpar.

• Ef vart verður við nýrnaskaða (nýrnahnoðrabólgu). Nýrnaskaði hefur komið fram hjá sjúklingum sem fá filgrastim. Hringdu strax í lækninn ef vart verður við þrota í andliti eða ökklum, blóð í þvagi eða brúnleitt þvag eða ef þér finnst þú hafa sjaldnar þvaglát en venjulega.

Mjög algeng aukaverkun við notkun filgrastims eru verkir í vöðvum eða beinum (verkir í stoðkerfi), sem lina má með því að taka hefðbundin verkjalyf. Hjá sjúklingum sem gangast undir stofnfrumu- eða beinmergsígræðslu kann að vera vart við hýsilssótt (GvHD), en það eru viðbrögð gjafafrumna gegn sjúklingi sem fær ígræðsluna; einkenni fela meðal annars í sér útbrot á lófum eða iljum og sáramyndun eða blöðrur í munni, þörmum, lifur, húð eða augum, lungum, leggöngum og liðum. Hjá heilbrigðum stofnfrumugjöfum er mjög algengt að vart verði við fjölgun hvítra blóðfrumna (hvítkornaríki) og fækkun blóðflagna sem dregur úr blóðstorknun (blóðflagnafæð), en læknirinn mun hafa eftirlit með þessu.

Mjög algengar aukaverkanir (kunna að koma fyrir hjá fleiri en 1 af hverjum 10 einstaklingum sem taka Filgrastim HEXAL)

hjá krabbameinssjúklingum

breytingar á blóðhag

aukning tiltekinna ensíma í blóðinu

minnkuð matarlyst

höfuðverkur

verkir í munni og hálsi (verkir í munni og koki)

hósti

niðurgangur

uppköst

hægðatregða

ógleði

húðútbrot

óvenjulegt hárlos eða þynning hárs (skalli)

vöðvaverkir eða beinverkir (verkir í stoðkerfi)

almennur slappleiki (þróttleysi)

þreyta

eymsli og þroti í meltingarvegi sem liggur frá munni að endaþarmsopi (bólga í slímhúð)

andnauð (mæði)

verkir

hjá heilbrigðum stofnfrumugjöfum

fækkun blóðflagna sem dregur úr storkugetu blóðsins (blóðflagnafæð)

fjölgun hvítra blóðkorna (hvítkornaríki)

höfuðverkur

• vöðvaverkir og beinverkir (verkir í stoðkerfi)

hjá sjúklingum með alvarlega, langvinna daufkyrningafæð

stækkað milta

lítill fjöldi rauðra blóðkorna (blóðleysi)

breytingar á blóðhag

aukning tiltekinna ensíma í blóðinu

höfuðverkur

blóðnasir

niðurgangur

stækkuð lifur (lifrarstækkun)

húðútbrot

vöðvaverkir og beinverkir (verkir í stoðkerfi)

liðverkir

hjá HIV sýktum sjúklingum

• vöðvaverkir og beinverkir (verkir í stoðkerfi)

Algengar aukaverkanir (kunna að koma fyrir hjá 1 af hverjum 10 einstaklingum sem taka Filgrastim HEXAL)

hjá krabbameinssjúklingum

ofnæmisviðbrögð (lyfjaofnæmi)

lágur blóðþrýstingur (lágþrýstingur)

verkir við þvaglát

verkur fyrir brjósti

blóðhósti

hjá heilbrigðum stofnfrumugjöfum

aukning tiltekinna ensíma í blóðinu

andnauð (mæði)

stækkað milta

hjá sjúklingum með alvarlega, langvinna daufkyrningafæð

rifið milta

fækkun blóðflagna sem dregur úr storkugetu blóðsins (blóðflagnafæð)

breytingar á blóðhag

bólga í æðum húðarinnar (æðabólga í húð)

óvenjulegt hárlos eða þynning hárs (skalli),

sjúkdómur sem veldur þynningu beina sem veldur því að þau verða veikbyggðari, stökkari og brothættari (beinþynning)

blóð í þvagi (blóðmiga)

verkur á stungustað

skemmdir á smágerðum síum í nýrunum (nýrnahnoðrabólga)

hjá HIV sýktum sjúklingum

• stækkað milta

Sjaldgæfar aukaverkanir (kunna að koma fyrir hjá 1 af hverjum 100 einstaklingum sem taka Filgrastim HEXAL)

hjá krabbameinssjúklingum

rifið milta

miltisstækkun

miklir verkir í beinum, fyrir brjósti, í þörmum eða liðum (sigðfrumukreppa)

höfnun ígrædds beinmergs (hýsilssótt)

verkir og þroti í liðum, svipað þvagsýrugigt (kristallagigt)

mikil bólga í lungum sem veldur öndunarerfiðleikum (andnauðarheilkenni)

lungun starfa ekki sem skyldi, veldur andnauð (öndunarbilun)

þroti og/eða vökvi í lungum (lungnabjúgur)

bólga í lungum (millivefslungnasjúdómur)

óeðlileg röntenmynd af lungum (lungnaíferð)

plómulitur, upphækkuð, sársaukafull sár á útlimum, stundum á andliti og hálsi, ásamt hita (Sweets heilkenni)

bólga í æðum húðarinnar (æðabólga í húð)

versnun iktsýki

óvenjulegar breytingar á þvagi

verkur

lifrarskaði af völdum stíflu í smáum bláæðum í lifur (stíflandi bláæðasjúkdómur)

blæðing frá lungum (lungnablæðing)

breyting á því hvernig líkaminn stjórnar vökva innan líkamans sem getur valdið þrota

skemmdir á smágerðum síum í nýrunum (nýrnahnoðrabólga)

hjá heilbrigðum stofnfrumugjöfum

rifið milta

miklir verkir í beinum, fyrir brjósti, í þörmum eða liðum (sigðfrumukreppa)

skyndileg lífshættuleg ofnæmisviðbrögð (bráðaofnæmisviðbrögð)

breytingar á blóðhag

blæðing í lungum (lungnablæðing)

blóðhósti

óeðlileg röntenmynd af lungum (lungnaíferð)

skortur á upptöku súrefnis í lungum (vefildisskortur)

aukning tiltekinna ensíma í blóðinu

versnun iktsýki

skemmdir á smágerðum síum í nýrunum (nýrnahnoðrabólga)

hjá sjúklingum með alvarlega, langvinna daufkyrningafæð

miklir verkir í beinum, fyrir brjósti, í þörmum eða liðum (sigðfrumukreppa)

umfram prótín í þvagi (prótínmiga)

hjá HIV sýktum sjúklingum

• miklir verkir í beinum, fyrir brjósti, í þörmum eða liðum (sigðfrumukreppa)

Tíðni ekki þekkt (ekki hægt að áætla tíðni út frá fyrirliggjandi gögnum)

• skemmdir á smágerðum síum í nýrunum (nýrnahnoðrabólga)

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn, lyfjafræðing eða hjúkrunarfræðinginn vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.Hvernig geyma á Filgrastim HEXAL

Geymið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á öskju og áletrun sprautu á eftir EXP. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið í kæli (2°C - 8°C).

Geymið áfylltu sprautuna í ytri umbúðum til varnar gegn ljósi.

Ef Filgrastim HEXAL er fryst í ógáti skemmist það ekki.

Fjarlægja má sprautuna úr kæli og geyma hana við stofuhita í eitt skipti í að hámarki 72 klukkustundir (en ekki yfir 25°C). Við lok tímabilsins má ekki setja lyfið aftur í kælinn heldur skal því fargað.

Ekki skal nota lyfið ef vart verður við upplitun, grugg eða agnir, en það ætti að vera tær, litlaus til lítillega gulleitur vökvi.

Ekki má skola lyfjum niður í frárennslislagnir eða fleygja þeim með heimilissorpi. Leitið ráða í apóteki um hvernig heppilegast er að farga lyfjum sem hætt er að nota. Markmiðið er að vernda umhverfið.

6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

Filgrastim HEXAL inniheldur

-Virka innihaldsefnið filgrastim.

Filgrastim HEXAL 30 ME/0,5 ml stungulyf/innrennslislyf, lausn í áfylltri sprautu: Hver áfyllt sprauta inniheldur 30 ME filgrastim í 0,5 ml sem jafngildir 60 ME/ml.

Filgrastim HEXAL 48 ME/0,5 ml stungulyf/innrennslislyf, lausn í áfylltri sprautu: Hver áfyllt sprauta inniheldur 48 MU filgrastim í 0,5 ml sem jafngildir 96 ME/ml.

-Önnur innihaldsefni eru glútamiksýra, sorbitól (E420), pólýsorbat 80 og vatn fyrir stungulyf.

-Nálarhettan á sprautunni gæti innihaldið þurrt gúmmí (latex).

Lýsing á útliti Filgrastim HEXAL og pakkningastærðir

Filgrastim HEXAL er tært, litlaust eða lítillega gulleitt stungulyf/innrennslislyf, lausn í áfylltri sprautu.

Filgrastim HEXAL er fáanlegt í pakkningum sem sem innihalda 1, 3, 5 eða 10 áfylltar sprautur með inndælingarnál og með eða án nálaröryggisbúnaðar.

Ekki er víst að allar pakkningastærðir séu markaðssettar.

Markaðsleyfishafi

HEXAL AG Industriestrasse 25 D-83607 Holzkirchen Þýskaland

Sími: + 49 8024 908-0 Bréfasími: + 49 8024 908-1290 Netfang: service@hexal.com

Framleiðandi

Sandoz GmbH

Biochemiestrasse 10

A-6250 Kundl

Austurríki

Hafið samband við fulltrúa markaðsleyfishafa á hverjum stað ef óskað er upplýsinga um lyfið:

België/Belgique/Belgien, България, Česká republika, Danmark, Deutschland, Eesti, España,

Finland, France, Hrvatska, Ireland, Ísland, Italia, Κύπρος, Latvija, Lietuva, Luxembourg/Luxemburg, Magyarország, Malta, Nederland, Norge, Österreich, Polska, Portugal, România, Slovenija, Slovenská republika, Suomi, Sverige, United Kingdom:

Hexal AG

Ελλάδα:

Novartis (Hellas) A.E.B.E. Τηλ: +30 210 281 17 12

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður {MM/ÁÁÁÁ}

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu http://www.ema.europa.eu. Upplýsingar á íslensku eru á http://www.serlyfjaskra.is.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Leiðbeiningar um hvernig á að sprauta sig sjálfur

Þessi kafli inniheldur upplýsingar um hvernig þú gefur þér sjálfum/sjálfri inndælingu með Filgrastim HEXAL. Það er mikilvægt að þú reynir ekki að gefa sjálfum/sjálfri þér sprautu nema hafa fengið þjálfun í því hjá lækni eða hjúkrunarfræðingi. Filgrastim HEXAL er ýmist afhent með eða án nálaröryggisbúnaðar og læknir eða hjúkrunarfræðingur mun sýna þér hvernig þú átt að fara að. Ef þú ert ekki viss um hvernig þú átt að standa að inndælingunni eða þú hefur einhverjar spurningar skaltu leita aðstoðar hjá lækninum eða hjúkrunarfræðingnum.

1.Þvoðu þér um hendurnar.

2.Taktu eina sprautu úr pakkningunni og fjarlægðu hlífðarlokið af inndælingarnálinni. Á sprautunum eru kvörðunarhringir sem gera það kleift að nota aðeins hluta þeirra ef á þarf að halda. Hver kvörðunarhringur samsvarar 0,1 ml rúmmáli. Ef aðeins þarf að nota hluta sprautunnar skal fjarlægja umfram magn lausnar fyrir inndælingu.

3.Hreinsaðu húðina með sprittþurrku á stungustaðnum.

4.Myndaðu fellingu með því að klípa í húðina með þumli og vísifingri.

5.Stingdu nálinni í húðina með snöggri og þéttri hreyfingu. Sprautaðu Filgrastim HEXAL lausninni eins og læknirinn hefur sýnt þér. Spyrðu lækninn eða lyfjafræðing ráða ef þú ert ekk viss.

Áfyllt sprauta án nálaröryggisbúnaðar

6.Haltu húðinni ávallt í klemmu, ýttu hægt og jafnt á bulluna.

7.Eftir að vökvanum hefur verið dælt inn dregurðu nálina út og sleppir takinu á húðinni.

8.Settu notaða sprautuna í förgunarílátið. Notaðu hverja sprautu aðeins fyrir eina inndælingu.

Áfyllt sprauta með nálaröryggisbúnaði

6.Meðan þú heldur húðinni í stöðugri klemmu ýtirðu hægt og jafnt á bulluna uns búið er að gefa allan skammtinn og ekki er unnt að ýta meira á bulluna. Ekki létta þrýstingnum af bullunni!

7.Eftir inndælingu vökvans dregurðu nálina út en heldur á meðan stöðugum þrýstingi á bulluna og sleppir svo húðinni.

8.Slepptu takinu á bullunni. Nálaröryggisbúnaðurinn færist strax til og hylur nálina.

9.Farga skal öllum lyfjaleifum og/eða úrgangi. Notaðu aðeins hverja sprautu fyrir eina inndælingu.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Eftirfarandi upplýsingar eru einungis ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki:

Skoða þarf lausnina fyrir notkun. Aðeins skal nota tærar lausnir án agna. Stöðugleiki Filgrastim HEXAL verður ekki fyrir slæmum áhrifum af því að það komist í frost fyrir slysni.

Filgrastim HEXAL inniheldur engin rotvarnarefni: Vegna hugsanlegrar hættu á örverumengun eru Filgrastim HEXAL sprautur eingöngu einnota.

Nálarhetta sprautunnar gæti innihaldið þurrt gúmmí (latex) og því eiga einstaklingar sem eru næmir fyrir efninu ekki að handfjatla hana.

Þynning fyrir lyfjagjöf (valmöguleiki)

Ef óskað er eftir má þynna Filgrastim HEXAL í 50 mg/ml (5%) glúkósalausn. Ekki má þynna Filgrastim HEXAL með natríum klóríð lausnum.

Aldrei er mælt með slíkri þynningu að lokastyrkur verði < 0,2 ME/ml (2 μg/ml).

Hjá sjúklingum sem fá filgrastim þynnt niður að styrknum < 1,5 ME/ml (15 μg/ml) skal bæta við albúmíni úr sermi manna (HSA) þannig að endanlegur styrkur verði 2 mg/ml.

Dæmi: Ef endanlegt rúmmál er 20 ml skal gefa heildarskammta af filgrastim sem nema minna en 30 ME (300 μg) með 0,2 ml af 200 mg/ml (20%) albúmínlausn (Ph. Eur) úr sermi manna.

Þegar filgrastim hefur verið þynnt með 50 mg/ml (5%) glúkósalausn má nota það með gleri og ýmsum plastefnum, svo sem pólývínylklóríði, pólýólefíni (samfjölliða úr pólýprópýleni og pólýetýleni) og pólýprópýleni.

Eftir þynningu: Sýnt hefur verið fram á efnafræðilegan og eðlisfræðilegan stöðugleika innrennslislyfs, lausnar eftir þynningu í 24 klst. við 2°C til 8°C. Frá örverufræðilegu sjónarhorni skal nota efnið tafarlaust. Ef það er ekki notað tafarlaust eru geymslutími við notkun og ástand fyrir notkun á ábyrgð notanda og yfirleitt ekki lengri en 24 klst. við 2°C til 8°C, nema þynning hafi farið fram við staðlaða og gildaða smitgát

Notkun áfylltu sprautunnar með nálaröryggisbúnaði

Nálaröryggisbúnaðurinn hylur nálina að lokinni inndælingu til að koma í veg fyrir meiðsl af völdum nálar. Þetta hefur engin áhrif á eðlilega notkun sprautunnar. Þrýstið rólega og jafnþétt á bulluna þar til allur skammturinn hefur verið gefinn og ekki er hægt að þrýsta bullunni lengra. Viðhaldið þrýstingi á bullunni meðan sprautan er fjarlægð úr sjúklingnum. Nálaröryggisbúnaðurinn mun hylja nálina þegar bullunni er sleppt.

Notkun áfylltu sprautunnar án nálaröryggisbúnaðar

Gefið skammtinn samkvæmt staðlaðri aðferðarlýsingu.

Förgun

Farga skal öllum lyfjaleifum og/eða úrgangi í samræmi við gildandi reglur.

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf