Icelandic
A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z

Respreeza (human alpha1-proteinase inhibitor) – Fylgiseðill - B02AB02

Updated on site: 09-Oct-2017

Nafn lyfsRespreeza
ATC-kóðiB02AB02
Efnihuman alpha1-proteinase inhibitor
FramleiðandiCSL Behring GmbH

Fylgiseðill: Upplýsingar fyrir notanda lyfsins

Respreeza 1000 mg

Stungulyfsstofn og leysir, lausn

Alfa1-próteinasahemill manna

Þetta lyf er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Allir geta hjálpað til við þetta með því að tilkynna aukaverkanir sem koma fram. Aftast í kafla 4 eru upplýsingar um hvernig tilkynna á aukaverkanir.

Lesið allan fylgiseðilinn vandlega áður en byrjað er að nota lyfið. Í honum eru mikilvægar upplýsingar.

-Geymið fylgiseðilinn. Nauðsynlegt getur verið að lesa hann síðar.

-Leitið til læknisins eða heilbrigðisstarfsmanns ef þörf er á frekari upplýsingum.

-Þessu lyfi hefur verið ávísað til persónulegra nota. Ekki má gefa það öðrum. Það getur valdið þeim skaða, jafnvel þótt um sömu sjúkdómseinkenni sé að ræða.

-Látið lækninn eða heilbrigðisstarfsmann vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Sjá kafla 4.

Ífylgiseðlinum eru eftirfarandi kaflar:

1.Upplýsingar um Respreeza og við hverju það er notað

2.Áður en byrjað er að nota Respreeza

3.Hvernig nota á Respreeza

4.Hugsanlegar aukaverkanir

5.Hvernig geyma á Respreeza

6.Pakkningar og aðrar upplýsingar

1. Upplýsingar um Respreeza og við hverju það er notað Upplýsingar um Respreeza

Lyfið inniheldur virka efnið alfa1-próteinasahemil manna, sem er eðlilegur efnisþáttur blóðsins og er að finna í lungunum. Helsta hlutverk þess þar er að vernda lungnavefinn með því að hindra verkun ákveðinna ensíma sem kallast daufkyrningaelastasar. Daufkyrningaelastasar geta valdið skemmdum ef verkun þeirra er ekki stjórnað (til dæmis ef þú ert með skort á alfa1-próteinasahemlum).

Við hverju er Respreeza notað

Lyfið er notað fyrir fullorðna einstaklinga með þekktan alvarlegan skort á alfa1-próteinasahemli (arfgengt ástand sem einnig kallast alfa1 andtrýpsínskortur) sem hafa þróað með sér lungnasjúkdóm sem kallast lungnaþemba.

Lungnaþemba þróast þegar skortur á alfa1-próteinasahemli veldur ástandi þar sem daufkyrningaelastösum er ekki nægilega vel stjórnað og þeir skemma litlu loftblöðrurnar í lungunum, þaðan sem súrefni berst í líkamann. Vegna þessara skemmda geta lungun ekki virkað nægilega vel.

Ef lyfið er notað reglulega eykst þéttni alfa1-próteinasahemils í blóði og lungum og hægir þannig á framvindu lungnaþembu.

2. Áður en byrjað er að nota Respreeza

EKKI má nota Respreeza

ef um er að ræða ofnæmi fyrir alfa1-próteinasahemli eða einhverju öðru innihaldsefni lyfsins (talin upp í kafla 6).

ef þú hefur greinst með skort á ákveðnum próteinum í blóði sem kallast immúnóglóbúlín af gerð A (IgA) og hefur þróað mótefni gegn því.

Varnaðarorð og varúðarreglur

Leitið ráða hjá lækninum eða heilbrigðisstarfsmanni áður en Respreeza er notað.

Upplýsingar um ofnæmisviðbrögð: hvenær er nauðsynlegt að hægja á eða stöðva innrennslið?

Þú kannt að vera með ofnæmi fyrir alfa1-próteinasahemli manna jafnvel þótt þú hafir áður fengið alfa1- próteinasahemil manna og þolað það vel. Í sumum tilvikum geta alvarleg ofnæmisviðbrögð komið fram. Læknirinn mun upplýsa þig um merki ofnæmisviðbragða (til dæmis kuldahrollur, andlitsroði, hraðari hjartsláttur, blóðþrýstingsfall, svimi, útbrot, ofsakláði, kláði, erfiðleikar við öndun eða kyngingu ásamt bólgu á höndum, andliti eða munni) (sjá einnig kafla 4).

Láttu lækninn eða heilbrigðisstarfsmann tafarlaust vita ef þú tekur eftir slíkum viðbrögðum meðan á innrennsli lyfsins stendur. Læknirinn gæti ákveðið að hægja á eða stöðva lyfjagjöfina og hefja viðeigandi meðferð, en það fer eftir eðli og alvarleika viðbragðanna.

Ef um er að ræða sjálfsmeðferð/heimameðferð skaltu stöðva innrennslið tafarlaust og hafa samband við lækninn eða heilbrigðisstarfsmann.

Upplýsingar um öryggi hvað varðar sýkingar

Respreeza er framleitt úr plasma úr mönnum (sem er vökvahluti blóðsins þegar blóðfrumur hafa verið fjarlægðar).

Þar sem blóð getur borið með sér sýkingar,eru gerðar sérstakar ráðstafanir þegar lyf eru framleidd úr blóði eða blóðvökva manna til að koma í veg fyrir að þær séu til staðar í lyfinu og berist til sjúklinga. Þær eru m.a.:

vandlegt val á blóð- og plasmagjöfum til að tryggja að þeir sem eiga á hættu að valda smiti séu útilokaðir,

prófanir á sýnum úr gefnu blóði og plasma til að reyna að forðast notkun blóðhluta með merkjum um veirur/sýkingar,

notkun aðferða við vinnslu blóðs og plasma sem geta óvirkjað eða fjarlægt veirur.

Þessar ráðstafanir eru taldar bera árangur gegn veirum svo sem alnæmisveiru (HIV), lifrarbólgu A veiru, lifrarbólgu B veiru, lifrarbólgu C veiru og parvóveiru B19.

Hins vegarer ekki hægt að útiloka að fullu möguleikann á smiti þegar lyf eru unnin úr blóði eða plasma úr mönnum, þrátt fyrir þessar ráðstafanir.

Læknirinn gæti ráðlagt þér að íhuga bólusetningu gegn lifrarbólgu A og B ef þú færð reglulega/endurtekið próteinasahemla sem unnir eru úr mannaplasma.

Mælt er eindregið með því að í hvert sinn sem þú færð skammt af Respreeza, sé heiti og lotunúmer lyfsins skráð í því skyni að halda skrá yfir þær lotur sem notaðar eru.

Reykingar

Þar sem tóbaksreykur er mikilvægur áhættuþáttur í þróun og framvindu lungnaþembu, er þér eindregið ráðlagt að hætta reykingum og forðast óbeinar reykingar.

Börn og unglingar

Lyfið er ekki ætlað börnum eða unglingum yngri en 18 ára.

Notkun annarra lyfja samhliða Respreeza

Látið lækninn eða heilbrigðisstarfsmann vita um öll önnur lyf sem eru notuð, hafa nýlega verið notuð eða kynnu að verða notuð.

Meðganga, brjóstagjöf og frjósemi

Við meðgöngu, brjóstagjöf, grun um þungun eða ef þungun er fyrirhuguð skal leita ráða hjá lækninum eða heilbrigðisstarfsmanni áður en lyfið er notað.

Þar sem alfa 1-próteinasahemill er eðlilegur hluti af blóði manna, er ekki gert ráð fyrir að ráðlagður skammtur af lyfinu valdi skaða á þroska fósturs. Hins vegar, þar sem engar upplýsingar liggja fyrir varðandi öryggi Respreeza á meðgöngu, skal aðeins gefa þér þetta lyf með varúð ef þú ert þunguð. Ekki er vitað hvort Respreeza berst í brjóstamjólk. Ef þú ert með barn á brjósti mun læknirinn ræða við þig um áhættu og ávinning af því að taka lyfið.

Engar upplýsingar liggja fyrir um áhrif á frjósemi en þar sem alfa1-próteinasahemill er eðlilegur efnisþáttur í blóði, er ekki gert ráð fyrir neinum áhrifum á frjósemi ef þú notar Respreeza í ráðlögðum skömmtum.

Akstur og notkun véla

Sundl getur komið fram eftir gjöf lyfsins. Ef þú finnur fyrir sundli skaltu ekki aka eða nota vélar þar til sundlið er liðið hjá (sjá kafla 4).

Respreeza inniheldur natríum

Lyfið inniheldur u.þ.b. 1,9 mg af natríum í hverjum ml af blandaðri lausn. Læknirinn eða heilbrigðisstarfsmaður munu hafa það í huga ef þú ert á saltsnauðu fæði.

3.Hvernig nota á Respreeza

Eftir blöndun er Respreeza gefið með innrennsli í bláæð. Heilbrigðisstarfsmaður með reynslu af meðferð við skorti á alfa1-próteinasahemli mun hafa eftirlit með fyrstu innrennslunum.

Heimameðferð / Sjálfsmeðferð

Eftir fyrstu innrennslin gætir þú eða umönnunaraðili þinn einnig gefið Respreeza, en aðeins eftir að hafa fengið viðeigandi þjálfun. Ef læknirinn ákveður að þú hentir vel fyrir slíka heimameðferð/sjálfsmeðferð, mun hann eða hún leiðbeina þér við:

hvernig blanda eigi og gefalyfið(sjá myndskreyttar leiðbeiningar í lok fylgiseðilsins í kaflanum „Upplýsingar fyrir heilbrigðisstarfsmenn og sjúklinga sem henta til heimameðferðar/sjálfsmeðferðar“)

hvernig halda eigi lyfinu dauðhreinsuðu (smitgátartækni við innrennsli)

hvernig halda eigi meðferðardagbók

hvernig bera eigi kennsl á aukaverkanir, þ.á.m. einkenni ofnæmisviðbragða, og hvaða aðgerða eigi að grípa til ef slík viðbrögð koma fram (sjá einnig kafla 2 og kafla 4)

Læknirinn eða heilbrigðisstarfsmaður mun reglulega endurskoða innrennslistækni þína/umönnunaraðila þíns til að tryggja áframhaldandi rétta meðhöndlun.

Skammtur

Það magnaf Respreeza sem þú færð byggist á líkamsþyngd þinni. Ráðlagður skammtur er 60 mg á kg líkamsþyngdar og skal gefa hann einu sinni í viku. Innrennslislausnin er venjulega gefin á u.þ.b.

15 mínútum (u.þ.b. 0,08 ml af lausn á kg líkamsþyngdar á hverri mínútu). Læknirinn mun ákveða viðeigandi innrennslishraða fyrir þig með því að taka tillit til þyngdar þinnar og innrennslisþols.

Ef notaður er stærri skammtur af Respreeza en mælt er fyrir um

Afleiðingar ofskömmtunar eru ekki þekktar.

Láttu lækninn eða heilbrigðisstarfsmann vita ef þú heldur að þú hafir notað meira Respreeza en mælt var fyrir um. Hann eða hún mun gera viðeigandi ráðstafanir.

Ef gleymist að nota Respreeza

Taktu strax næsta skammt og síðan með reglulegu millibili samkvæmt ráðleggingum læknisins eða heilbrigðisstarfsmanns.

Ekki á að tvöfalda skammt til að bæta upp skammt sem gleymst hefur að nota.

Ef hætt er að nota Respreeza

Ekki hætta að nota lyfið án samráðs við lækninn eða heilbrigðisstarfsmann. Ef meðferð með Respreeza er hætt getur ástand þitt versnað.

4.Hugsanlegar aukaverkanir

Eins og við á um öll lyf getur þetta lyf valdið aukaverkunum en það gerist þó ekki hjá öllum. Slíkar aukaverkanir geta komið fram jafnvel þótt þú hafir áður fengið alfa1-próteinasahemla manna og þolað þá vel.

Sumar aukaverkanir geta verið alvarlegar:

Ofnæmisviðbrögð geta komið fram í sjaldgæfum tilvikum (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum). Í mjög sjaldgæfum tilvikum (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum

10 000 einstaklingum) geta þau þróast yfir í alvarleg ofnæmisviðbrögð, jafnvel þótt þú hafir ekki sýnt nein merki um ofnæmi við fyrri innrennsli.

Láttu lækninn eða heilbrigðisstarfsmann tafarlaust vita ef þú finnur fyrir einhverjum merkjum um ofnæmisviðbrögð (til dæmis hrolli, roða, hraðari hjartslætti, blóðþrýstingsfalli, svima, útbrotum, ofsakláða, kláða, erfiðleikum við öndun eða kyngingu og þrota í höndum, andliti eða munni) meðan á gjöf Respreeza stendur. Læknirinn eða heilbrigðisstarfsmaður gætu ákveðið að hægja á eða stöðva lyfjagjöfina og veita viðeigandi meðferð við viðbrögðunum, en það fer eftir eðli og alvarleika viðbragðanna.

Ef um er að ræða sjálfsmeðferð/heimameðferð skaltu tafarlaust stöðva innrennslið og hafa samband við lækninn eða heilbrigðisstarfsmann.

Aðrar aukaverkanir sem geta komið fram:

Algengar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 einstaklingum)

Sundl, höfuðverkur, mæði (andnauð), ógleði.

Sjaldgæfar (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 100 einstaklingum)

Breyting á snertiskyni svo sem sviði, náladofi eða dofi í höndum, handleggjum, fótleggjum eða fótum (tilfinningarglöp), andlitsroði, ofsakláði, hreistruð útbrot og útbrot um allan líkamann, líkamlegt máttleysi (þróttleysi), viðbrögð á innrennslisstað (svo sem sviði, stingir, verkir, bólga eða roði á innrennslisstað (margúll)).

Koma örsjaldan fyrir (geta komið fyrir hjá allt að 1 af hverjum 10 000 einstaklingum)

Minnkað snertiskyn svo sem sviði, náladofi eða dofi í höndum, handleggjum, fótleggjum eða fótum (tilfinningarvannæmi), óhófleg svitamyndun (ofsvitnun), kláði, brjóstverkur, kuldahrollur, hiti (sótthiti).

Tíðni ekki þekkt (ekki hægt að áætla tíðni út frá fyrirliggjandi gögnum)

Verkir í eitlum (sporöskjulaga vefjamassar sem eru dreifðir um allan líkamann og geta verið áþreifanlegir, t.d. í handarkrika, nára eða hálsi), þroti í andliti, þroti í augum og vörum.

Tilkynning aukaverkana

Látið lækninn eða heilbrigðisstarfsmann vita um allar aukaverkanir. Þetta gildir einnig um aukaverkanir sem ekki er minnst á í þessum fylgiseðli. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkanir beint samkvæmt fyrirkomulagi sem gildir í hverju landi fyrir sig, sjá Appendix V. Með því að tilkynna aukaverkanir er hægt að hjálpa til við að auka upplýsingar um öryggi lyfsins.

5.Hvernig geyma á Respreeza

Geymið lyfið þar sem börn hvorki ná til né sjá.

Ekki skal nota lyfið eftir fyrningardagsetningu sem tilgreind er á ytri öskjunni og miðum hettuglasanna á eftir EXP. Fyrningardagsetning er síðasti dagur mánaðarins sem þar kemur fram.

Geymið ekki við hærri hita en 25°C. Má ekki frjósa.

Eftir blöndun skal nota lausnina strax. Ef það er ekki mögulegt má geyma lausnir í allt að 3 klukkustundir við stofuhita (allt að 25°C). Frystið ekki blönduðu lausnina.

6. Pakkningar og aðrar upplýsingar

Respreeza inniheldur

Virka innihaldsefnið er alfa1-próteinasahemill. Eitt hettuglas inniheldur u.þ.b. 1000 mg af alfa1- próteinasahemli manna.

Önnur innihaldsefni eru natríumklóríð, natríumtvívetnisfosfat einhýdrat og mannitól (sjá síðustu málsgrein í kafla 2).

Leysir: Vatn fyrir stungulyf.

Lýsing á útliti Respreeza og pakkningastærðir

Lyfið er hvítt til beinhvítt duft.

Eftir að það hefur verið leyst upp með vatni fyrir stungulyf á lausnin að vera tær, litlaus eða gulleit og laus við sýnilegar agnir.

Ein pakkning inniheldur:

1 hettuglas með stungulyfsstofni

1 hettuglas með 20 ml af vatni fyrir stungulyf

1 yfirfærslubúnað til blöndunar

1 síu

Markaðsleyfishafi og framleiðandi

CSL Behring GmbH

Emil-von-Behring-Strasse 76 D-35041 Marburg Þýskaland

Hafið samband við fulltrúa markaðsleyfishafa á hverjum stað ef óskað er upplýsinga um lyfið:

België/Belgique/Belgien

Lietuva

CSL Behring NV

CSL Behring GmbH

Tél/Tel: +32 15 28 89 20

Tel: +49 69 30584437

България

Luxembourg/Luxemburg

Новимед ООД

CSL Behring NV

Тел: +359 2 850 86 17

Tél/Tel: +32 15 28 89 20

Česká republika

Magyarország

CSL Behring s.r.o.

CSL Behring Kft.

Tel: +420 702 137 233

Tel.: +36 1 213 4290

Danmark

Malta

CSL Behring AB

AM Mangion Ltd.

Tel: +46 8 544 966 70

Tel: +356 2397 6333

Deutschland

Nederland

CSL Behring GmbH

CSL Behring BV

Tel: +49 69 30584437

Tel: +31 85 111 96 00

Eesti

Norge

CSL Behring GmbH

CSL Behring AB

Tel: +49 69 30584437

Tlf: +46 8 544 966 70

Ελλάδα

Österreich

CSL Behring ΕΠΕ

CSL Behring GmbH

Τηλ: +30 210 7255 660

Tel: +43 1 80101 2463

España

Polska

CSL Behring S.A.

CSL Behring Sp. z.o.o.

Tel: +34 933 67 1870

Tel.: +48 22 213 22 65

France

Portugal

CSL Behring S.A.

CSL Behring Lda

Tél: +33 1 53 58 54 00

Tel: +351 21 782 62 30

Hrvatska

România

PharmaSwiss d.o.o.

Nicopharma Distribution Group

Tel: +385 1 631 1833

Tel.: +40 21 327 2614

Ireland

Slovenija

CSL Behring UK Ltd.

MediSanus d.o.o.

Tel: +44 1444 447405

Tel: +386 1 25 71 496

Ísland

Slovenská republika

CSL Behring AB

CSL Behring s.r.o.

Sími: +46 8 544 966 70

Tel: +421 911 653 862

Italia

Suomi/Finland

CSL Behring S.p.A.

CSL Behring AB

Tel: +39 02 34964 200

Puh/Tel: +46 8 544 966 70

Κύπρος

Sverige

CSL Behring ΕΠΕ

CSL Behring AB

Τηλ: +30 210 7255 660

Tel: +46 8 544 966 70

Latvija

United Kingdom

CSL Behring GmbH

CSL Behring UK Ltd.

Tel: +49 69 30584437

Tel: +44 1444 447405

Þessi fylgiseðill var síðast uppfærður MM/ÁÁÁÁ

Ítarlegar upplýsingar um lyfið eru birtar á vef Lyfjastofnunar Evrópu http://www.ema.europa.eu.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Eftirfarandi upplýsingar eru einungis ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum sem henta fyrir heimameðferð/sjálfsmeðferð

Blöndun og gjöf Respreeza

Lyfið skal blanda, gefa og meðhöndla með varúð að viðhafðri smitgát til að viðhalda dauðhreinsun lyfsins.

Fylgja skal leiðbeiningunum hér fyrir neðan:

Blöndun

Blandið duftið með 20 ml af leysi (vatni fyrir stungulyf). Heildarblöndun skal náð innan 5 mínútna.

Athugasemdir varðandi notkun yfirfærslubúnaðarins:

Yfirfærslubúnaðurinn sem fylgir með í Respreeza öskjunni er með hvítan enda (fyrir leysinn) með tvöföldu opi og grænan enda (fyrir duftið) með einu opi.

Röng notkun á yfirfærslubúnaðinunn veldur því að lofttæmi tapast og kemur í veg fyrir yfirfærslu á leysinum og seinkar þannig eða kemur í veg fyrir blöndun Respreeza.

Yfirfærslubúnaðurinn er dauðhreinsaður. Þegar hlífarnar hafa verið fjarlægðar (skref 3 og 4) má ekki snerta óvörðu oddana.

1.Sjáið til þess að hettuglasið með duftinu (grænt lok) og hettuglasið með leysinum (blátt lok) séu við stofuhitastig (allt að 25°C).

Þetta má gera annaðhvort með því að láta hettuglösin standa við stofuhita í um klukkustund eða með því að halda þeim í lófanum í nokkrar mínútur.

2.Fjarlægið plastsmellulokin af þeim hettuglösum sem nota skal. Hreinsið gúmmítappana með sótthreinsandi lausn og leyfið þeim að þorna.

3.Fjarlægið hlífðarhettuna af hvíta enda yfirfærslubúnaðarins.

Komið hettuglasinu með leysinum fyrir á sléttu yfirborði og stingið hvíta enda yfirfærslubúnaðarins ofan í miðjan tappann á uppréttu hettuglasinu með leysinum (blátt lok).

4.Komið hettuglasinu með duftinu (grænn tappi) fyrir á sléttu yfirborði. Fjarlægið hlífðarhettuna af græna enda yfirfærslubúnaðarins. Hvolfið hettuglasinu með leysinum með áföstum yfirfærslubúnaðinum og stingið græna enda yfirfærslubúnaðarins varlega ofan í miðjan tappann á uppréttu hettuglasinu með duftinu (grænt lok). Kragi yfirfærslubúnaðarins á að hvíla á yfirborði tappans þannig að leysirinn renni inn í hettuglasið með duftinu.

5.Leyfið leysinum að flæða inn í hettuglasið með duftinu. Þetta gerist sjálfkrafa vegna áhrifa lofttæmis í hettuglasinu með duftinu. Ef ekkert lofttæmi er í hettuglasinu, mun leysirinn ekki streyma inn í hettuglasið með duftinu. Ef það gerist skaltu ekki nota lyfið.

6.Meðan á yfirfærslu leysisins stendur skaltu bleyta allt duftið með því að halla hettuglasinu varlega.

7.Þegar yfirfærslu leysisins er lokið á að draga yfirfærslubúnaðinn úr hettuglasinu með duftinu og farga hettuglasinu með leysinum og yfirfærslubúnaðinum.

8.Snúðu hettuglasinu með duftinu varlega þar til duftið er að fullu uppleyst.

Ekki hrista blönduna til að forðast froðumyndun.

9.Skoðið blönduðu lausnina vandlega. Lausnin á að vera tær, litlaus til ljósgul og laus við sýnilegar agnir. Notið ekki lausnir sem eru mislitar, skýjaðar eða með ögnum.

10.Þar sem meira en 1 hettuglas með stungulyfsstofni þarf til að fá nauðsynlegan skammt, skaltu endurtaka skref 1 til 9 hér að ofan og nota viðbótarpakkningu sem inniheldur yfirfærslubúnað.

Ekki endurnýta yfirfærslubúnaðinn.

11.Viðhafið smitgát til að flytja blönduðu lausnirnar frá hettuglösunum yfir í innrennslisílátið (t.d. tóman innrennslispoka eða glerflösku, fylgir ekki) með yfirfærslusetti fyrir innrennsli í bláæðsem fæst á almennum markaði (fylgir ekki).

Lyfjagjöf

Sía verður blönduðu lausnina meðan á gjöf stendur með því að nota hentuga innrennslissíu (ráðlögð gatastærð 5 míkrómetrar) og innrennslissett (fylgir ekki).

1.Tengið innrennslissettið við innrennslisílátið.

Gangið úr skugga um að klemman á innrennslissettinu sé lokuð.

Hækkið undir innrennslisílátinu (ef það er innrennslispoki skaltu hengja hann á vökvastatíf). Undirbúið hólfið með því að kreista dropahólfið þar til Respreeza hefur fyllt hólfið til hálfs. Losið hægt um klemmuna á innrennslissettinu og leyfið Respreeza að flæða þar til það nær út í enda slöngunnar án loftbóla.

Lokið fyrir klemmuna.

2.Festið 5 míkrómetra síu á enda vökvasettsins.

Losið aftur um klemmuna og leyfið Respreeza að flæða þar til sían er mettuð.

3.Tengið hinn enda síunnar við innrennslissettið (t.d. fiðrilda-/vængjanál eða innrennslislegg).

4.Gefið blönduðu lausnina í æð með innsprautun/innrennsli samkvæmt leiðbeiningum læknisins.

Lausnina skal gefa með innrennslishraða sem er u.þ.b. 0,08 ml á kg líkamsþyngdar á hverri mín., sem ræðst af svörun þinni og líðan. Það tekur u.þ.b. 15 mínútur fyrir ráðlagða skammtinn

60 mg á kg líkamsþyngdar að renna inn.

5.Ef innrennslið hægir á sér eða stöðvast, gæti þurft að skipta um síu því hún getur verið stífluð.

Endurtakið síðan skref 2-4.

Eitt hettuglas með Respreeza er eingöngu einnota.

Farga skal öllum lyfjaleifum og/eða úrgangi í samræmi við fyrirmæli læknisins eða heilbrigðisstarfsmanns.

Athugasemdir

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z
  • Hjálp
  • Get it on Google Play
  • Um okkur
  • Info on site by:

  • Presented by RXed.eu

  • 27558

    skráð lyfseðilsskylt lyf